Hr. Eydís sendi frá sér algjöra 80´s stuðbombu í gær þar sem Erna Hrönn tekur með þeim lagið I’m So Excited.
„Okkur fannst ekki annað hægt en að fá Ernu Hrönn til að syngja lagið, enda er það eins og samið fyrir hana,“ segja þeir félagar í Hr. Eydís.
„I’m So Excited kom fyrst út með The Pointer Sisters í september árið 1982. Laginu gekk þokkalega, en það sló ekki í gegn almennilega fyrr en það var “remixað” árið 1984 og gefið út á plötunni Break Out. Á þeim tíma var ein af systrunum orðin amma, það hefur kannski hjálpað til því “remixið” varð algjör hittari og fór upp í níunda sæti Billboard vinsældalistans.“
Erna Hrönn verður gestur Hr. Eydís á tónleikum hljómsveitarinnar ár Sviðinu á Selfossi þann 13. október næstkomandi. Hún fór létt með að mæta í hljóðstofu Hr. Eydís þegar lagið var tekið upp og gjörsamlega rúllaði laginu upp.
„Þetta er eitt af þessum 80’s stuðlögum sem eru löngu orðin sígild,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við, „þegar Erna Hrönn byrjaði að syngja lagið var eins og þær Pointer-systur væru hreinlega mættar í hana.“