Í sumar stendur veitingastaðurinn Hendur í höfn í Þorlákshöfn fyrir sumartónleikaröð en meðal þeirra sem þar koma fram eru Salka Sól, Ásgeir Trausti og Valdimar.
„Hendur í höfn opnaði á nýjum og stærri stað í maí síðastliðnum. Þessi fallegi staður býður hreinlega upp á það að halda tónleika,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, viðburðastjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Ég var að flytja aftur heim í Þorlákshöfn í vor og er ýmsu vön þegar kemur að því að skipuleggja tónleika og því lá þetta eiginlega bara í augum uppi,“ segir Ása spurð að því hvernig hugmyndin að tónleikaröðinni hafi kviknað.
„Við Dagný og Viggi, sem eiga og reka Hendur í höfn, þekkjumst vel. Ég var meðal annars fyrsti starfsmaðurinn þeirra þegar þau opnuðu Hendur í höfn á gamla staðnum fyrir fimm árum síðan og ég nýt þess að fá að taka þátt í þessu ævintýri þeirra með þessum hætti,“ segir Ása.
Uppselt á flesta tónleikana
Tvennir tónleikar hafa nú þegar verið haldnir og segir Ása að þeir hafi gengið vonum framar. „Þegar þetta er skrifað þá er uppselt á ferna tónleika og það má búast við að uppselt verði á þá alla. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að fólk bíði ekki með að tryggja sér miða ef það langar á einhverja ákveðna tónleika.“
Að sögn Ásu eru engir smá tónleikar framundan. „Núna á miðvikudaginn mun Ásgeir Trausti koma fram ásamt gítarleikaranum og æskuvini sínum Júlíusi Aðalsteini Róbertssyni. Tríóið Góss, sem samanstendur af galdrafólkinu Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og bróður hans Guðmundi Óskari Guðmundssyni spila 1. ágúst, Þorlákshafnardóttirin, söng- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir kemur fram ásamt Rúnari Gunnarssyni 9. ágúst og síðastir en alls ekki sístir eru það vinirnir Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn sem leika fyrir gesti á Hendur í höfn 11. ágúst.“
„Síðustu tveir tónleikarnir eru í samhengi við Hafnardaga í Þorlákshöfn sem stendur líka fyrir glæsilegri tónlistarveislu. Það verður því nóg um að vera í Þorlákshöfn þessa helgi.“
Átti ekki orð yfir móttökunum
„Ég og allir á Hendur í höfn erum í skýjunum með viðtökurnar! Eins og Salka Sól sagði á tónleikunum síðasta föstudag, þá vissi hún ekki við hverju var að búast þegar ég ræddi við hana fyrst um að koma með hljómsveitina sína til Þorlákshafnar og halda tónleika, en hún átti ekki til orð yfir móttökunum! Bæði hjá starfsfólki Hendur í höfn og hjá tónleikagestum. Hún sagðist í raun hafa fundið það um leið og hún gekk inn á staðinn að þarna myndu einhverjir töfrar eiga sér stað. Ég held að það sé alveg rétt hjá henni og mig grunar að Þorlákshafnarbúar séu sammála. Það er alveg frábært að geta gengið að svona vönduðum veitingastað í sinni heimabyggð, notið góðrar tónlistar, sýnt sig og séð aðra. Það eru ekki margir staðir á Suðurlandi sem bjóða upp á svona kvöldstundir og tilvalið fyrir Sunnlendinga að fá sér bíltúr í menningarbæinn Þorlákshöfn.“
Salka Sól ásamt hljómsveit sl. föstudagskvöld. Ljósmynd/Ása Berglind.
Hausttónleikaröð framundan
Ása segir að þessi tónleikaröð hafi verið ákveðin tilraun. „Ég var mjög spennt að sjá hvernig þetta myndi ganga en hafði alveg gífurlega mikla trú á þessu og bæjarbúum og eins og ég sagði áðan, þá hefur þetta gengið vonum framar. Svo ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kynna hausttónleikaröð þegar líður á sumarið og ég er alveg sannfærð um að hún muni ganga jafn vel.“
„Það er svo dásamlega gefandi að rífa sig upp úr sófanum, koma sér vel fyrir í fallegu umhverfi, svo ég tali nú ekki um með góðar veitingar og njóta þess að hlusta á hæfileikaríkt tónlistarfólk gefa af sér,“ segir Ása.
Frá tónleikunum sl. föstudagskvöld. Ljósmynd/Ása Berglind.
„Ég vil hvetja áhugasama til þess að fylgja Facebook-síðu Hendur í höfn. Þar koma t.d. fram allar upplýsingar um tónleikana ásamt reglulegum myndum af mat, sem er í raun eins og listaverk eins og allt annað sem Dagný Magnúsdóttir gerir,“ segir Ása að lokum.