Evrópsk kvikmyndahátíð á Flúðum

Í júnímánuði efna Evrópustofa og Bíó Paradís til Evrópskrar kvikmyndahátíðar á landsbyggðinni og verður hringnum lokað á Flúðum í kvöld.

Sýningarnar verða í félagsheimili Hrunamanna og hefst sú fyrsta kl. 16. Það er danska myndin Antboy sem fjallar um hinn tólf ára gamla Palla sem er bitinn af maur og öðlast við það ofurhetjukrafta. Myndin hentar fimm ára og eldri og er talsett á íslensku.

Kl. 18 verður mynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus, sýnd en hún hlaut ekki færri en átta verðlaun á Edduhátíðinni í ár og hefur verið tilnefnd sem besta norræna myndin á Gautaborgarhátíðinni 2014 og besta alþjóðlega myndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara. Myndin gerist á Suðurlandi og fjallar um draum sveitastúlkunnar Heru Karlsdóttur um að verða rokkstjarna.

Síðasta myndin á hátíðinni, sem sýnd verður kl. 20, er belgíska myndin Broken Circle Breakdown í leikstjórn Felix van Groening. Myndin hefur farið sigurför um Evrópu og meðal annars hlotið Lux verðlaunin 2013, áhorfendaverðlaun Berlinale og verðlaun sem besta evrópska myndin hjá Europa Cinemas Label. Myndin er sýnd með íslenskum texta.

„Við höfum nú í tvígang haldið evrópska kvikmyndahátíð í Reykjavík og á Akureyri sem hafa gengið afar vel. Því vaknaði sú hugmynd að fara víðar og heimsækja bæi hringinn í kringum Ísland sem fá ef til vill ekki oft tækifæri til að sjá verðlaunamyndir af hæsta gæðaflokki og í bestu stafrænu gæðum sem völ er á,” segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu. „Það er frítt inn á sýningarnar en tilgangurinn er fyrst og fremst að kynna og breiða út evrópska menningu.”

Fyrri greinSigrún í Súluholti heldur myndlistarsýningu
Næsta greinSelfoss fékk ÍBV í bikarnum