Eyrún Huld Ingvarsdóttir frá Þrándarholti í Gnúpverjahreppi og nemandi við Tónlistarskóla Árnesinga sigraði í sínum aldursflokki í F.Janiewicz fiðlukeppninni sem haldin var nú í desember.
Þetta er í annað skiptið sem keppnin er haldin á vegum pólska sendiráðsins í samvinnu við Tónlistarfélagið F.Chopin á Íslandi. Nemendur úr íslenskum tónlistarskólum taka þátt í keppninni en vegna COVID-19 var hætt við tónleika og nemendurnir sendu inn myndband með hljóðfæraleiknum í staðinn.
Eyrún lék 3. þátt úr Konsert í g-moll eftir Vivaldi og Salut d’amour eftir Edward Elgar, við undirleik Einars Bjarts Egilssonar. Í síðustu viku var svo tilkynnt um úrslitin, þar sem í ljós kom að Eyrún Huld hafði sigrað í sínum aldursflokki.
Í dómnefndinni voru framúrskarandi tónlistarmenn; prófessorarnir Mieczysław Szlezer, Guðný Guðmundsdóttir, Piotr Tarcholik og Janusz Wawrowski. Kennari Eyrúnar Huldar er Guðmundur Pálsson.
Hér fyrir neðan má sjá Eyrúnu Huld og Einar Bjart flytja Salut d’amour.