Natalia Drumeva kom færandi hendi á Bókasafn Árborgar á Selfossi á dögunum og færði safninu glæsilega bókargjöf, eintak af bókinni A fairy-tale about Bulgaria, einstakan grip sem gefinn er út í takmörkuðu upplagi.
„Menningar- og upplýsingadeild Árborgar vill gjarnan skipa sér á bekk með þeim sem leggja lið nýjum íbúum og hámarka þannig, annars vegar, gróða okkar af nýjum straumum og hinsvegar, vellíðan þeirra sem hingað velja að koma og samsömun þeirra að þessu samfélagi. Natalia er komin til okkar frá Búlgaríu og er nú að búa sér heimili hér, ekki bara með menntun sína og þekkingu, heldur færði hún safninu þessa gullfallegu bók frá sínu heimalandi,“ sagði Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar í samtali við sunnlenska.is og vitnar í framhaldinu í Tómas Guðmundsson;
„Bókasafnið í heimabæ Nataliu var vinnustaður móður hennar og það minnir okkur á hvað „hjörtunum svipar saman“… að við leitum og finnum það sem er kunnuglegt í nýjum og ókunnum aðstæðum. Eintakið sem hún færði okkur er eitt af aðeins 200 lúxus-eintökum af þessari bók, sem fjallar um stórmerkilega sögu Búlgaríu frá tíma fyrstu ljósmynda og fram á miðja síðustu öld,“ segir Heiðrún Dóra ennfremur en bókin er svo verðmæt og vegleg að hana þurfti að tilkynna sérstaklega á flugvöllum til þess að hægt væri að ferðast með hana til Íslands.
„Við erum mjög þakklát fyrir að fá þetta fallega eintak í okkar hendur og munum koma því þannig fyrir að allir fái að skoða og njóta á safninu,“ segir Heiðrún Dóra að lokum um leið og hún ítrekar þakkir til Nataliu með von um að samfélagið í Árborg reynist henni gott og hlýlegt nýtt heimili.