Færeyjaferð blokkflautusveita Tónlistarskóla Árnesinga

Allur hópurinn í Klaksvík. Ljósmynd/Aðsend

Dagana 7. – 10. mars sl. lagði blokkflautusveit Tónlistarskóla Árnesinga land undir fót og heimsótti Klaksvík í Færeyjum. Með ferðinni endurguldum við heimsókn frá mars í fyrra, þegar Laila Elisabeth Nielsen blokkflautukennari við tónlistarskólann í Klaksvík heimsótti okkur með hóp blokkflautu-, þverflautu- og píanónemenda, ásamt nokkrum foreldrum.

Snemma föstudags lögðu 10 nemendur, ásamt tveimur kennurum og sex foreldrum, af stað frá Selfossi. Síðdegis var hópurinn kominn til Klaksvíkur og strax drifinn í skemmtilega skoðunarferð, undir leiðsögn Hans Hjalta Skaale, um bæinn. Daginn eftir fékk hópurinn að kynnast Klaksvík enn betur og skoðaði m.a. menningarsalinn Varpið, róðrarhöllina og Christianskirkjuna með sína ótrúlega stóru og fallegu altaristöflu eftir Skovgaard.

Að aflokinni skoðunarferð fyrsta kvöldið sameinuðust nemendur beggja skóla á æfingu í grunnskóla Klaksvíkur. Æfingadagskrá hélt áfram bæði laugardag og sunnudag í grunnskólanum, tónlistarskólanum og í Varpinu. Helginni lauk svo með tónleikum í glæsilegum tónleikasal Varpsins. Flutt var mjög fjölbreytt dagskrá með íslenskum og færeyskum þjóðlögum í skemmtilegum útseningum Lailu, renecance- og popptónlist. Aðsókn að tónleikunum var frábær og nemendum klappað lof í lófa í dagskrárlok.

Færeyjaheimsóknin var mjög ánægjuleg og komu ferðalangar þreyttir en sælir til baka. Nemendur eiga bæði hrós og þakkir skildar fyrir allan dugnaðinn við undirbúning, æfingar, fjáraflanir og frábæra samveru! – Klaksvíkingum þökkum við innilega fyrir afskaplega hlýjar og höfðinglegar móttökur.

Til að mæta hluta ferðakostnaðar sótti hópurinn um styrk til Vestnorden (NATA, #vestnorden). Þetta er sjóður sem veitir styrki til að efla tengsl á milli Íslands, Færeyja og Grænlands og hægt að sækja um t.d. vegna skóla-, menningar- og íþróttaferða. – Frábært að geta sótt í slíka sjóði.

Helga Sighvatsdóttir og Kristín Jóhanna Dudziak Glúmsdóttir,
blokkflautukennarar

Myndirnar hér fyrir neðan úr ferðinni eru frá foreldrum og kennurum.

Frá æfingu. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Eftir tónleikana. Ljósmynd/Aðsend
Kennarar og skólastjórnendur beggja skóla. Laila, Kristín, Helga og Helga Hilmars, skólastjóri Tónlistarskóla Klaksvíkur. Ljósmynd/Aðsend
Klaksvík. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLangsóttur séns á sófameistaratitli
Næsta greinFastir vélsleðamenn við Langjökul