Myrru Rós Þrastardóttur er margt til lista lagt. Fyrir utan að vera tónlistarkona og söngkona hefur hún skapað sér góðan orðstír sem listakona. Þekktust er hún fyrir vængjapör sem hún hannar undir nafninu Fjaðrafok.
Myrra segir að upphafið að Fjaðrafoki hafi verið frekar skemmtilegt. „Það varð eiginlega óvart til. Aðalega af því að ég fluttist með manninum mínum á Stokkseyri, en hann var að fara að hefja störf aftur hjá Björgvini Tómassyni, föður sínum, við orgelsmíðar og uppsetningu þeirra eftir nokkura ára hlé frá því starfi. Ég hafði enga vinnu að sækja þarna á svæðinu en langaði að gera eitthvað samt, svo ég byrjaði bara að mæta með þeim á verkstæðið á morgnanna og gramsa í afskurðarkössunum og leita að einhverju til að gera eitthvað úr,“ segir Myrra í samtali við sunnlenska.is.
Besti staðurinn
Myrra, sem er upprunalega úr Hafnarfirði, hefur verið búsett á Stokkseyri í þrjú ár. „Okkur Júlíusi manninum mínum langaði í raun bara að komast úr borginni og út í sveit. Ég hélt ég væri borgarbarn en það kom í ljós að svo er ekki og það má segja að ég hafi loksins fundið mig í rónni hérna á Stokkseyri,“ segir Myrra.
„Þetta er besti staður sem ég hef búið á. Yndislegt samfélag og gott fólk allt í kring,“ segir Myrra en þess má geta að hún er ein fimmmenningunum sem standa að vinnustofunni og menningarhúsinu BrimRót á Stokkseyri sem tók til starfa fyrr í haust.
Mesta einbeitingin þegar hún skapar
Myrra segir að hún smíði helst viðarverk. „Aðallega smíða ég vængjapör sem standa út úr veggjum og svipar örlítið til hreindýrahorna á vegg. Þeir eru að mestu leyti unnir úr uppnýttum við og spón sem ég sanka að mér og bjarga frá því að enda sem eldiviður eða á haugunum.“
Að sögn Myrru hefur hún alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa og búa til hluti. „Ég hef alltaf haft mesta einbeitingu þegar ég sit við og skapa með höndunum hvort sem það er í föstu formi eða orðum, eða spila á gítar og syng. Það gerist eitthvað, einhver galdur, einskonar hugleiðsla. Annars er yfirleitt alltaf allt á fullu í höfðinu á mér. Svo sköpun fyrir mér er stundum frí.“
Finnst gaman að fegra umhverfið
Aðspurð hvaðan hún sækir helst innblástur segir Myrra að það sé erfitt að svara því. „Eiginlega alls staðar. Fuglarnir auðvitað, hrafninn þá helst. Umhverfið mitt þá stundina og geðslagið mitt líka. Mér finnst gaman að búa til fallega hluti og fegra umhverfið mitt á margvíslegan hátt,“ segir Myrra.
Myrra stundaði nám við Listaháskóla Íslands í tvö ár og lærði þar grafíska hönnun, en fann sig ekki nógu vel þar. „Ég kláraði ekki námið og fór út í tónlist. Þar fann ég mig á þeim tíma og ég hef verið að semja tónlist síðan 2009 og hef gefið út þrjár plötur undir mínu nafni og hef einnig komið að þremur öðrum plötum. Annars er ég ekkert lærð þannig. Er bara góð í höndunum og með ímyndunarafl. Fékk þessar hendur og þennan huga og nota þessi verkfæri bara svona.“
„Ég er með verkin frá Fjaðrafoki til sölu í hönnunarbúðinni Kirsuberjatréð í Reykjavík. Svo er ég með alls konar verk líka í Brimrót co-op á Stokkseyri. Og tónlistina á Spotify auðvitað,“ segir Myrra að lokum.