Karlakór Selfoss hefur undanfarin 58 ár fagnað sumarkomunni með tónleikum á sumardaginn fyrsta, sem nú verða haldnir í Selfosskirkju kl. 20:00.
Fernir tónleikar eru framundan hjá kórnum, þeir fyrstu sem fyrr segir á fimmtudagskvöld í Selfosskirkju og síðan aftur þar þriðjudaginn 25. apríl kl. 20:00. Kórinn syngur svo í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík fimmtudaginn 27. apríl kl. 20:00 og lokatónleikar starfsársins verða laugardaginn 29. apríl í Skálholtsdómkirkju kl. 17:00.
Trúlega hefur Karlakór Selfoss ekki verið fjölmennari en nú en fleiri en sjötíu söngmenn hafa mætt á æfingar kórsins í vetur. Kórfélagar hafa samviskusamlega æft vandaða söngdagskrá sem inniheldur fjölmörg ný verk, sem ekki hafa verið flutt af karlakórum fyrr, og efnisskráin er hæfilega blönduð af hefðbundnum karlakórslögum. Eftir hlé er leikhústónlist áberandi, meðal annars nokkur lög eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni.
Stjórnandi kórsins undanfarin 8 ár er Skarphéðinn Þór Hjartarson og hefur hann útsett um helming laganna á tónleikunum fyrir karlakórinn. Píanóleikari kórsins, líkt og undanfarin 12 ár, er Jón Bjarnason.
Miðaverð á tónleikana er 4.000 krónur.