Á dögunum var úthlutað 102,4 milljónum króna úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024. Fimm milljónir króna fóru til sunnlenskra verkefna; Listasafn Árnesinga hlaut 4 milljón króna styrk og Sumartónleikar Skálholtskirkju 1 milljón króna styrk.
Listasafnið fær styrk fyrir verkefnið Hringrásir, þar sem að fókusinn verður að vinna með ungu fólki í Árnessýslu. Ein af haustsýningum safnsins er útgangspunktur verkefnisins þar sem rannsóknir listamanna með vísindafólki eru skoðuð og verður verkefnið unnið í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem er mikilvægur hlekkur í verkefninu og hlakkar starfsfólk safnsins mikið til samstarfsins.
Á Sumartónleikum Skálholtskirkju í ár verður boðið upp á barnamenningarhátíð. Sumartónleikar fara að þessu sinni fram 6.-14. júlí og þar munu börnin meðal annars fá fræðslu um Gerði Helgadóttur myndlistarkonu, boðið verður upp á listasmiðjur og börnin fá einnig að kynnast sögunni af Gutta og ævintýrum hans auk þess sem boðið verður upp á þáttöku-tón-leikhús fyrir börn.