Hr. Eydís er nýstofnuð hljómsveit frá Selfossi, skipuð fjórum miðaldra reynsluboltum úr íslensku tónlistarlífi. Þema hljómsveitarinnar, eins og nafnið gefur til kynna, eru 80´s lög og á hverjum föstudegi birtist á YouTube nýtt 80´s lag sem þeir leika „með sínu nefi“.
Hljómsveitina skipa þeir Örlygur Smári, gítar og söngur, Ríkharður Arnar, hljómborð og bakraddir, Jón Örvar Bjarnason, bassi og bakraddir og Páll Sveinsson á trommur.
Nýjasta föstudagslagið með Hr. Eydís, það fimmta í röðinni, er Time After Time sem Cyndi Lauper gerði frægt árið 1984. Margir af ungu kynslóðinni muna svo eftir laginu úr annarri þáttaröð af Stranger Things. Það er nóg af tónlist framundan frá Hr. Eydísi og í framhaldinu mun svo stíga á stokk með sveitinni einvalalið gestasöngvara sem taka sitt „eydís-lag“. Lögin birtast á hverjum föstudegi kl. 12.