Dr. phil. Marion Lerner, dósent við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, flytur erindi um Tómas Sæmundsson: Ferðalög og ferðaskrif í Hlöðunni að Kvoslæk, Fljótshlíð, laugardaginn 1. júlí næstkomandi kl. 15:00.
Fjölnismaðurinn sr. Tómas Sæmundsson var prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð þar til hann andaðist 1841 aðeins 34 ára. Á árunum 1832 til 1834 ferðaðist Tómas um Evrópu og tók þannig þátt í þeirri evrópsku hefð sem kallaðist Grand tour eða Ferðalagið mikla. Ferð af þessu tagi var hugsuð sem menntaferð ungra manna að loknu formlegu námi og áður en þeir tóku að sér embætti í heimalandi sínu.
Þegar Tómas kom heim til Íslands hófst hann handa við að semja ferðabók, sem hann því miður lauk aldrei, en Jakob Benediktsson tók handritið saman og birti bókina 1947.
Í erindinu verður fjallað um ferðabókaskrif Tómasar og stiklað á stóru í ævisögu hans. Sjónum verður sérstaklega beint að því hvernig Tómas vildi miðla reynslu sinni og þekkingu til landsmanna sinna. Ferðabókin er mikilsverð heimild um sýn hans á það sem Íslendingar þurftu að læra um og þekkja. Með skrifum sínum vildi hann stuðla að framförum í heimalandi sínu og færa Ísland þannig aðeins nær Evrópu.
Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.
Að Kvoslæk er ekið um 10 km eftir Fljótshliðarvegi (261) frá Hvolsvelli, bærinn er merktur með skilti á vinstri hönd. Góð bílastæði eru við Hlöðuna en menningarviðburðir þar njóta uppbyggingarstyrks frá SASS.