Næstkomandi laugardag kl. 20:00 verður leiksýningin „Fjallkonan“ sýnd í Húsinu á Eyrarbakka.
Sýningin hefur ferðast víða um land og var sýnd í Tjarnarbíó á síðasta leikári en höfundur og leikkona sýningarinnar Hera Fjord fluttist fyrir stuttu til Eyrarbakka.
Fjallkonan er byggð á ævi langalangömmu Heru, veitingakonunnar Kristínar Dahlstedt sem sumir þekkja sem ástkonu ljósvíkingsins sem Laxness gerði frægan í Heimsljósi.
Kristín fór 18 ára til Danmerkur þar sem hún lærði um matseld og veitingarekstur en kom aftur til Íslands árið 1905 og rak eigin veitinga og gistiheimili í Reykjavík í hálfa öld, oftast undir nafninu Fjallkonan á Laugaveginum. Hún kom fram með margar nýjungar í veitingarekstri og breytti veitingahúsamenningunni eins og við þekkjum hana í dag.
Kristín var mikill frumkvöðull og nútímakona sem gerði hlutina eftir sínu eigin höfði, bæði í atvinnu og einkalífinu.
Hera Fjord er langalangömmubarn Kristínar og hefur kynnt sér sögu hennar vel og segir áhorfendum á litríkan og skemmtilegan hátt frá lífi hennar en veltir á sama tíma fyrir sér eigin lífi og því hverju hún á sameiginlegt með þessari formóður sinni.
Takmarkað framboð sæta er á sýningunni en frítt er inn í tilefni af menningarmánuðinum október í Árborg.