Síðastliðinn fimmtudag voru verðlaun veitt í ensku smásagnakeppninni 2021, sem Félag enskukennara á Íslandi (FEKÍ) heldur í tilefni af Evrópska tungumáladeginum þann 26. september.
Grunnskólinn í Hveragerði (GÍH) hefur tekið þátt í landskeppninni samfellt frá árinu 2012 með afbragðs góðum árangri enda er sögugerðin fastur liður í skólastarfinu. Að þessu sinni átti skólinn fjóra vinningshafa, sem fengu viðurkenningar sínar afhentar við hátíðlega athöfn að Bessastöðum. Forsetafrúin Eliza Reid afhenti verðlaunin ásamt stjórn FEKÍ.
Í flokknum 5. bekkur og yngri hlaut Hróar Ingi Hallsson 1. verðlaun og í flokknum 6.-7. bekkur hlaut Bryndís Klara Árnadóttir 3. verðlaun, Sigurður Grétar Gunnarsson hlaut 2. verðlaun og Dagbjört Fanný Stefánsdóttir hlaut 1. verðlaun.
Að sögn Ólafs Jósefssonar, enskukennara í GÍH, hafa aldrei borist jafn margar vandaðar smásögur og nú og sé árangur og þátttaka krakkanna í Hveragerði mikið fagnaðarefni.