Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka verður haldin laugardaginn 23. júní næstkomandi en hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár. Dagskráin hefst kl. 9:00 í Hallskoti þar sem skógræktarfélag Eyrarbakka býður til morgunverðar.
Kl. 10:00 opnar svo sýning á munum og skjölum sem tengjast sögu fangelsa á Íslandi á Stað. Sýningin er nefnd Drög að Fangelsisminjasafni Íslands á Stað og er hún einnig opin á sunnudag.
Eldsmíðafélag Suðurlands verður með opið hús við Túngötu og bókamarkaður verður í kjallara Laugabúðar auk þess sem söfnin á Eyrarbakka verða að sjálfsögðu opin; Byggðasafn Árnesinga í Húsinu, Sjóminjasafnið og Kirkjubær.
Leikhópurinn Lotta skemmtir við Sjóminjasafnið kl. 11:00 og teymt verður undir börnum á Garðstúninu kl. 11:30. Kl. 13:30 verður dansgjörningur við Húsið og á milli kl. 14 og 16 verður heimboð á þremur stöðum; hjá Írisi og Karli á Óseyri, Vigdísi í Bræðraborg og Sigurlaugu í Norðurkoti. Á sama tíma verður opið hús á Sólvangi, miðstöð íslenska hestsins.
Kl. 17:00 verður stutt söguganga með Magnúsi Karel Hannessyni, og hefst hún við Stað.
Hinn árlegi samsöngur verður í Húsinu á milli kl. 20:00 og 21:21 en kl. 22:00 hefst Jónsmessubrenna í fjörunni vestan við Eyrarbakka. Guðmundur Brynjólfsson mun ávarpa samkomugesti áður en Bakkabandið telur í fyrsta lag.
Þess má svo að lokum geta að Björgunarsveitin Björg býður ungum og öldnum að veiða frítt í Ölfusárósi fyrir landi Eyrarbakka dagana 22. til 24. júní í tilefni af hátíðinni.