Fjölbreytt dagskrá á 30 ára afmæli Töðugjalda

Ljósmynd/RY

Töðugjöld er ein elsta bæjarhátíð landsins en í ár er haldið upp á 30 ára afmæli hátíðarinnar. Hún var fyrst haldin árið 1994 og hefur verið haldin árlega síðan að undanskildum covid-árunum 2020 og 2021.

Dagskráin verður með nokkuð hefðbundnu sniði í ár með nokkrum spennandi viðbótum sem teygja sig yfir alla Töðugjaldavikuna.

Í kvöld, fimmtudagskvöld, halda Raddir úr Rangárþingi stórtónleika, Töðugjaldahlaupið fer fram 16. ágúst og þá um kvöldið býður Gula hverfið einnig heim.

Laugardagurinn 17. ágúst verður svo auðvitað smekkfullur af viðburðum sem endranær og ættu gestir á öllum aldri að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er yfir daginn eða á kvöldvökunni. Sunnudaginn 18. ágúst mætir Leikhópurinn Lotta á íþróttavöllinn með Bangsímonsýninguna sína og Hófí Samúels slær botninn í hátíðina með fjölskyldutónleiknum Hjartans mál í Menningarsalnum 18. ágúst kl. 17.

Meðal listamanna sem koma fram á Töðugjöldum í ár eru VÆB, Ingó Geirdal töframaður, Raddir úr Rangárþingi, skólahljómsveit Helluskóla, Emmsjé Gauti, Fríða Hansen og Kristinn Ingi og hljómsveitin FLOTT. Rúsínan í pylsuendanum verður svo að vanda óviðjafnanleg flugeldasýning Flubbó í lok kvöldvökunnar á laugardagskvöld.

Fyrri greinReynsluboltar styrkja verslanasvið Samkaupa
Næsta greinNauðsynleg stig fyrir lokabaráttuna