Það er sannarlega umfangsmikil dagskrá framundan á menningar– og fjölskylduhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hátíðin verður sett fimmtudaginn 17. ágúst og stendur til sunnudagsins 20. ágúst.
Bæjarbúar leggja hátíðinni lið með því að skreyta sitt hverfi og sinn garð. Mikil stemning hefur einnig myndast í kringum bílskúrsmarkaði og gallerí út um allan bæ. Verðlaun verða veitt fyrir fallegustu, frumlegustu og mestu garða- og húsaskreytingarnar, og fyrir fallegustu götuna.
Meðal þeirra sem koma fram á Blómstrandi dögum eru Helgi Björns, Guðrún Gunnarsdóttir, Emmsjé Gauti, Sigga Ósk, Eyjólfur Kristjánsson og fjöldi annarra tónlistarmanna. Áhersla er lögð á uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hápunktur hátíðarinnar sé á laugardeginum. Áhugaverðar listsýningar og fjölbreyttir tónlistarviðburðir eru í bænum þessa daga fyrir alla aldurshópa. Taylors Tívolí setur upp skemmtilegt tívolí í hjarta miðbæjarins og glæsilegir tónleikar verða haldnir yfir miðjan dag alla daga og einnig á laugardagskvöld þar sem kvöldinu lýkur með brekkusöng með Eyfa Kristjáns og flugeldasýningu.
Þá verður hið rómaða Blómaball á sínum stað og stærra en áður, en í ár verður ballið haldið í Íþróttahúsinu við Skólamörk. Hljómsveitin Stjórnin og Herra Hnetusmjör halda uppi stemningunni og heimamennirnir í hljómsveitinni Kopafeiti hefja ballið.