Bryggjuhátíðin á Stokkseyri verður haldin um helgina en þar verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og öll fjölskyldan ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.
Á laugardag koma fram BMX Brós, Leikhópurinn Lotta, víkingar frá Rimmugíg auk þess sem boðið verður upp á markað á Bankatúninu, hringekju og hoppukastala og ýmislegt fleira. Það verður jazzað í sjoppunni og sundlauginni og loftbolti á Stokkseyrarvelli.
Kl. 14 á laugardag verður stórleikur í 5. deildinni í knattspyrnu þar sem Stokkseyri tekur á móti nágrönnum sínum úr Knattspyrnufélagi Rangæinga.
Hápunktur hátíðarinnar er brenna og bryggjusöngur á laugardagskvöldið og að því loknu verður ball á Draugabarnum.
Alla helgina verður hægt að skella sér á kayak, heimsækja gallerín Gimli og Svartaklett og Veiðisafnið og Draugasetrið verða opin.