Hin árlega Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka verður að þessu sinni haldin á morgun, laugardag.
Að vanda verða margir dagskrárliðir og þar eiga allir aldurshópar að finna eitthvað við sitt hæfi. Og eins og undanfarin ár vænta Eyrbekkingar þess að fá sem flesta íbúa Sveitarfélagsins Árborgar til þess að taka þátt í hátíðinni. Gestir úr nærliggjandi byggðarlögum og lengra aðkomnir eru hjartanlega velkomnir!
Yngstu kynslóðinni verður sinnt sérstaklega með leikja- og skemmtidagskrá sem hefst kl. 11:00 á Garðstúninu við Húsið. Brúðubíllinn kemur í heimsókn og óvæntar uppákomur verða. Um hádegið verður gert hlé en yngri kynslóðin kemur aftur saman á túninu við Húsið kl. 14:30 og þá verður enn þá meira fjör og eitthvað gott í gogginn.
Fjölskyldan í Garðhúsum býður hressu fólki í morgunspjall í Frímannshúsi kl. 10:30 og þar verður heitt á könnunni.
Á hádegi hittast gamlir og ungir Eyrbekkingar og skrafa saman við brúsapallinn sem settur hefur verið upp við Húsið og kýrin Gulrót baular og baular í fjósinu.
Karen Dröfn Hafþórsdóttir heldur einsöngstónleika í Eyrarbakkakirkju við undirleik Önnu Rúnar Atladóttur kl. 13. Þetta eru fyrstu einsöngstónleikar Karenar á Eyrarbakka en hún hefur stundað söngnám í Söngskólanum í Reykjavík undanfarin ár.
Eftir tónleikana mæta liðugir krakkar úr Sveitarfélaginu Árborg og sýna listir sínar í garðinum við Húsið. Þetta eru Parkour-iðkendur og fimleikastúlkur og af þessu má enginn missa.
Í Laugabúð mun Ófeigur Sigurðsson segja frá langalangafa sínum, Guðmundi Guðmundssyni bóksala á Eyrarbakka kl. 15. Í framhaldi af því ætlar Magnús Karel Hannesson svo að rifja upp gamla sakamálasögu af Bakkanum frá lokum 19. aldar.
Og svo ætla ungir menn, stúlkur og piltar, að rifja upp gamla takta úr kýló á Garðstúninu kl. 16. Það verður spennandi að sjá hvort einhver nær því að kýla alla leið heim til Gerðu pósts.
Að venju kemur svo Heimir Guðmundsson frá Blátúni og leikur undir almennan söng í Húsinu kl. 20:30. Þar syngur hver með sínu nefi.
Í fjörunni vestan við þorpið mun Kristján Runólfsson sagnaskáld og einu sinni Eyrbekkingur ávarpa gesti kl. 22 áður en Andri Eldgleypir spýr eldi og brennisteini og kveikir í Jónsmessubrennunni. Hið margrómaða Bakkaband heldur síðan uppi stemmingunni og spilar undir söng og dansi eins lengi stætt er.
Aðgangur að söfnunum á Eyrarbakka verður ókeypis þennan dag. Þar eru áhugaverðar sýningar – Auður, böl eða blessun í borðstofu Hússins og Manstu hvar þú varst? í forsal Sjóminjasafnsins.
Og svo er auðvitað opið í Gónhól með endalausu gamni og í Rauða húsinu með ilminn út á götu.
Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka er styrkt af Sveitarfélaginu Árborg eins og mörg undanfarin ár og heimamenn leggja fram ómælt sjálfboðaliðsstarf við framkvæmd hátíðarinnar.