Menningar- og bæjarhátíðin Vor í Árborg verður haldin um næstu helgi. Dagskráin hefst á Sumardaginn fyrsta og lýkur sunnudaginn 24. apríl.
Hátíðin er árlegur viðburður í sveitarfélaginu, þar sem skipulagning og undirbúningur á dagskrá ásamt öðrum menningarviðburðum eru að stærsta hluta í höndum íbúa og félagasamtaka sveitarfélagsins.
Fjölbreytt dagskrá verður í Árborg um helgina og meðal annars verður fjölskylduleikurinn Gaman-saman sem fjölskylda á sínum stað. Fjölskyldan ferðast þá með vegabréf um sveitarfélagið og safnar stimplum fyrir þátttöku á þeim fjölmörgu viðburðum sem í boði eru. Vegabréfinu er síðan skilað inn eftir hátíðina og eiga þátttakendur möguleika á veglegum vinningum.