Fjölbreytt dagskrá og markaðsstemmning á Jólatorginu

Jólatorgið við Tryggvatorg á Selfossi er opið um helgina, bæði laugardag og sunnudag milli kl. 14 og 18.

Á handverksmarkaðnum er í boði fallegt handverk á góðu verði. Þessa helgi er hægt að skoða og versla silfursmíði, textíl, útsaum, trévörur, skartgripi, glervöru, brjóstsykur, steinakarla, málaðar myndir, heklað, prjónað, þæft og ýmsa aðra gjafavöru. Hægt er að kaupa veitingar í einu húsinu af ungmennum úr Félagsmiðstöðinni Zelsíuz. Í boði er kakó, kaffi, kleinur, pönnukökur og fleira góðgæti.
Dagskráin á sviðinu hefst kl. 14:30 á laugardag með Tómasi Smára og Huldu Kristínu en Hulda vann nýverið söngvakeppni FSu. Hljómsveitin Glundroði kemur á sviðið kl. 15, Magnús Kjartan Eyjólfsson kl. 15:45 og Daníel Haukur Arnarsson kl. 16:15, allt saman frábærir tónlistarmenn.
Á sunnudaginn byrjar skemmtidagskráin á sviðinu kl. 14:15 með Tómasi Ibsen Tómassyni sem syngur og spilar fyrir gesti og kynnir í leiðinni tónleika sem verða í Hvítasunnukirkjunni 20. desember, leikskólabörnin úr leikskólum Árborgar syngja um kl. 14:30 og í framhaldinu af söng leikskólabarnanna stýrir Örlygur Ben jólaballi. Von er á einhverjum jólasveinum til að taka þátt í því auk þess sem það verður hægt að taka mynd af sér með sveinka. Síðasta atriði dagsins er um kl. 16 en þá syngur Jóhanna Ómarsdóttir, ung tónlistarkona frá Selfossi.
Fyrri greinLjóðakvöld með lifandi tónlist á Krúsinni
Næsta greinHrafnhildur Lilja: Af geðsjúkdómum og staðalímyndum – Að segja eða þegja?