Fjölmenni á minningartónleikum

Mikið fjölmenni var á tvennum tónleikum í Skálholti í gær þar sem Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara, var minnst.

Helga Ingólfsdóttir ýtti Sumartónleikum í Skálholti úr vör 1975. Hún var listrænn stjórnandi tónleikanna í þrjá áratugi eða þar til hún varð að láta af störfum vegna heilsubrests 2004. Helga lést á síðasta ári.

Gærdagurinn hófst á erindi Kolbeins Bjarnasonar um Helgu og var troðfullt út úr dyrum í Skálholtsskóla. Helga var mikill frumkvöðull í tónlistarlífi og er flutningur hennar á tónlist Bachs þekktust og á heimsmælikvarða.

Á tónleikunum í gær var frumflutt tónverk um Helgu eftir Oliver Kentish. Frá upphafi hafa verið frumflutt tónverk á Sumartónleikum eftir tugi höfunda, innlenda sem erlenda.

Í lok dags var síðan stofnaður minningarsjóður um Helgu.

Í dag kl. 17 verður guðsþjónusta í Skálholti þar sem Hedwig Bilgram og Marta G. Halldórsdóttir munu sjá um tónlistarflutning. Prestur verður sr. Egill Hallgrímsson.

Fyrri grein„Svarið við tilgangi lífsins er á blaðsíðu 200“
Næsta greinBirgir Leifur og Tinna meistarar