Ný fjölskyldudagskrá í Listasafni Árnesinga hefst sunnudaginn 6. nóvember kl. 14-15, en í vetur verður fjölskyldum með börn sérstaklega boðið í safnið fyrsta sunnudag hvers mánaðar.
Þar getur fjölskyldan átt skapandi gæðastundir en dagskráin fléttar saman skemmtun, skapandi virkni og gagnrýnni hugsun. Í hvert sinn verða 1-3 listaverk á yfirstandandi sýningu skoðuð sérstaklega og efnt til samræðu um það sem þar má sjá, hvort heldur kunnuglegt eða framandi.
Með starfsmanni safnsins og/eða starfandi listamanni er rýnt í valin verk og ímyndunaraflið virkjað. Samræðurnar miðast fyrst og fremst við hugarheim barnanna og fantasíunni gefinn laus taumur við túlkun verkanna og frekari sköpun. Fyrst fer fram skapandi orðræða sem eftir efnum og aðstæðum verður líka tengd listrænu og samfélagslegu samhengi. Í framhaldinu gefst síðan tækifæri til þess að skapa nýtt verk innblásið af umræðunni.
Um er að ræða tilraunaverkefni sem styrkt er af Uppbyggingasjóði Suðurlands og miðað er við þátttöku barna frá fjögurra/fimm ára aldri og eldri, en börnin verða að vera í fylgd fullorðinna sem taka líka þátt í dagskránni, því fyrst og fremst er fjölskyldum boðið að eiga ánægjuega samverustund í safni. Allt efni er til staðar og aðgangur og þátttaka ókeypis.