Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin í Flóahreppi 30. maí – 1. júní nk. Hátíðin hefur fest sig rækilega í sessi á viðburðardagatali Sunnlendinga enda um fjölbreytta viðburði að ræða sem henta fyrir alla aldurshópa.
Í ár verður að vanda opið hús á skrifstofu Flóahrepps þar sem sjá má skemmtilegar ljósmyndir úr leik og starfi sveitarfélagsins.
Menningarstyrkjum Flóahrepps verður úthlutað við hátíðlega athöfn í Þjórsárveri föstudaginn 30. maí kl. 15.00. Við sama tækifæri verður tilkynnt opinberlega um kjör á íþróttamanni/mönnum ársins. Barnakór Flóaskóla mun flytja nokkur lög undir stjórn Kolbrúnar Berglindar Grétarsdóttur.
Hið sögufræga Kambsrán verður í brennidepli í gönguferð sem farið verður í undir leiðsögn göngustjóra en sögusvið þess er í Flóahreppi. Kambsránið var framið 9. febrúar 1827 á bænum Kambi þegar fjórir grímuklæddir menn réðust til inngöngu, bundu íbúa og brutu upp hirslur í leit að peningum.
Morgunmaturinn er í Þingborg en það eru kvenfélagskonur úr Hraungerðishreppi sem annast hann að þessu sinni. Þangað eru allir velkomnir á laugardagsmorguninn í skemmtilega samverustund sem er tilvalið upphaf á góðum degi í Flóahreppi.
Sveppi og Villi ætla að mæta í Þingborg á laugardeginum og nokkuð víst að þeir félagar eiga eftir að skemmta gestum með uppátækjum sínum.
Kvöldvaka verður haldin í Þingborg á laugardagskvöldinu þar sem Svavar Knútur og Helga Braga munu halda uppi góðri stemningu. Kosningavaka vegna sveitarstjórnarkosninga verður á sama tíma í Þingborg og óhætt að lofa spennuþrungnu andrúmslofti í bland við notalegan tónlistarflutning og ærlegt grín.
Á meðal staða sem ætla að hafa opið þessa helgi eru Lambastaðir, Tré og List í Forsæti og Ullarvinnslan í gömlu Þingborg en þar verður meðal annars tilkynnt um úrslit í samkeppni um höfuðfat ársins 2014.
Hér er aðeins verið tæpt á örfáum viðburðum. Sölubásar, markaðstjöld og kökubasar verður á sínum stað. Ljósmyndamaraþon, barnamessa og opin hús verða víðs vegar um alla sveit þar sem tekið verður á móti gestum að hætti Flóamanna með gestrisni og gæsku að leiðarljósi.