Næstkomandi föstudag heldur hljómsveitin Fljúgandi villisvín tónleika í Skrúfunni á Eyrarbakka.
„Þetta verður svolítið tjútt, mig langar að fólk sé úti á gólfinu að dansa! Maður lendir oft í því að fólk þori ekki að taka þátt og ef enginn gerir ekki neitt þá gerir enginn neitt – ef þú skilur. Ég fíla mig miklu meira ef fólk er að hafa gaman, þannig að endilega komið og dansið eins og ég veit ekki hvað!“ segir Ronja Hafsteinsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
Auk Ronju skipa Hafsteinn Viktorsson og Hildur Hermannsdóttir hljómsveitina. Hildur bættist nýlega í hópinn en hún spilar á hljómborð. Þess má geta að Ronja og Hafsteinn eru feðgin og Ronja og Hildur eru einnig saman í hljómsveitinni Nostalgíu.
Ronja segir að lagalisti kvöldsins verði fjölbreyttur. „Eins og vanalega þá er þetta svolítið bland af lögum. Við ætlum að reyna eins og við getum að taka lög sem flestir geta sungið með og bara njóta.“
Fljúgandi villisvín spila tónlist sem er fyrir alla fjölskylduna en Ronja bendir á að þar sem tónleikarnir byrja klukkan 20:00 að þá henti þeir frekar þeim sem eldri eru og þurfa ekki að fara snemma í háttinn. „Það eru samt allir velkomnir. Bara komdu og kíktu til að tjútta, bara gaman! Við lofum trylltu fjöri!,“ segir Ronja að lokum.
Frítt er á tónleikana í boði Skrúfunnar.