Laugardaginn 10. júní kl. 14:00 til 16:00 munu náttúrufræðingarnir Rannveig Thoroddsen og Einar Þorleifsson leiða létta og skemmtilega fræðslugöngu um Þrastarskóg. Gangan er hluti af sumardagskrá í Alviðru.
Litið verður eftir foldarskarti í skógarbotni og lagt við hlustir eftir fuglasöng á grein eða kvaki á Soginu.
Gangan er létt og hentar allri fjölskyldunni. Hún hefst við Alviðru undir Ingólfsfjalli og að lokinni göngu verður boðið upp á kaffi og kakó og kleinur í Alviðru.
Fleiri viðburðir eru framundan í Alviðru, sem er fræðslusetur Landverndar, en þann 24. júní verður Jónsmessuganga og í ágúst verður dagskrá um líffræðilega fjölbreytni.