Flygillinn er fundinn

Kantorinn Jón Bjarnason, organisti í Skálholtsdómkirkju.

Leit Skálholtsstaðar að flygli fyrir Skálholtsdómkirkju hefur loksins borið árangur en Skálholt hyggst festa kaup á Steinway flygli Salarins í Kópavogi.

Örlögin höguðu því svo að þegar Kópavogsbær ákvað að selja annan flygil Salarins, til þess að fjármagna kaup á nýjum, er Skálholtsstaður einmitt að leggja lokahönd á að safna fyrir slíku hljóðfæri.

Skálholtsstaður og Salurinn hafa nú tekið höndum saman og halda söfnunartónleika næstkomandi laugardag kl. 18 í Salnum í Kópavogi og er þess vænst að tónleikarnir munu skila því sem uppá vantar til að fjármagna kaupin.

Hljóðfæri í hæsta gæðaflokki
„Það hefur aldrei í sögunni verið til flygill í Skálholtsdómkirkju“, segir Jón Bjarnason, kantor og tónlistastjóri í Skálholti.

„Það er gríðarlega öflugt tónlistarlíf í Skálholti og er hljómurinn þar algjörlega magnaður. Á hverju ári eru haldnir fjölmargir tónleikar og er Skálholt einn eftirsóttasti staður á Íslandi fyrir kórtónleika. Oft er píanómeðleikur nauðsynlegur með kórtónlist og er mjög mikilvægt að Skálholtsdómkirkja geti boðið upp á hljóðfæri í hæsta gæðaflokki þegar á þarf að halda. Flygill kemur sér einnig frábærlega í helgihaldi staðarins með sálmasöng og sem er oft mjög góður með píanómeðleik,“ segir Jón í samtali við sunnlenska.is.

Dágóð upphæð hefur safnast í flygilsjóð Skálholts sem byrjaði með fimm milljón króna framlagi frá Kirkjubyggingarsjóði á Laugarvatni. Síðan hafa verið nokkrir styrktartónleikar og hafa ýmsir lagt fram rausnarleg fjárframlög í þetta góða málefni. Fráfarandi ríkistjórn styrkti sjóðinn um fjórar milljónir kóna í desember síðastliðnum og nú vantar aðeins rúmar þrjár milljónir til að geta fjármagnað flygilkaupin að fullu.

Fjölbreytt efnisskrá á tónleikunum
Á tónleikunum í Salnum á laugardaginn mun Jón leika vel valin píanóverk en einnig koma fram Skálholtskórinn, Karlakór Selfoss, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir einsöngvari og Jóhann I. Stefánsson trompetleikari.

„Á efnisskránni verða verk sem spanna sögu tónbókmenntanna frá J.S. Bach, Beethoven, Chopin, Lizst og allt til okkar ástsælu Páls Ísólfssonar og Sigvalda Kaldalóns. Við vonum að allir velunnarar Skálholtsstaðar sjái sér fært að koma og styrkja okkur að koma þessu glæsilega hljóðfæri heim í Skálholt,“ segir Jón vongóður að lokum.

Miðasala fer fram á Salurinn.is 

Fyrri greinAukinn kraftur í framkvæmdum á bökkum Ölfusár
Næsta greinBesti árangur kvennaliðs Selfoss frá upphafi