Ísak Eldjárn, markaðsmógúll, á Selfossi svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2024 hjá þér? Árið hjá mér var mjög gott. Ég setti mér það markmið í fyrra að mig langaði til þess að vinna í starfi þar sem ég get verið nánast hvar sem er. Ég er að vinna í markaðsmálum núna á veitingastöðunum hans pabba þannig það mætti segja að ég hafi náð þeim markmiðum. Ég er ekki hrifinn af þessum hefðbundna 9-5 degi.
Hvað stóð upp úr á árinu? Það sem stóð upp úr á árinu kom núna í desember en ég ásamt Emelíu Sól, konunni minni og Andreu Ýr systur hennar opnuðum Kurashi, lífsstíls fyrirtæki. Við erum bara með eina vöru eins og er en 2025 koma fleiri vörur og það verður spennandi að þróa það!
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á árið 2024? STARS með Kanye West tók þetta. Hann átti rosalegt ár sá meistari.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Að horfa á Skaupið er ómissandi fyrir mig. Ég er þó aðallega spenntur að sjá Höllu Hrund sketsinn þegar hún brosti alveg svakalega í ræðunni sinni. Það verður snilld.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Ég hætti að drekka 2020 þannig áramótin hafa verið frekar róleg seinustu ár. Kannski fer ég í góðra vina hópi á Risið/Miðbar og bý þar til nýja hefð!
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Kalkúnn, sætkartöflumús og einhver snilldar sósa sem mamma gerir.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Já, maður hefur nú reynt að gera það. Ég steig á vigtina í gær og hef aldrei verið jafn þungur. Ætli maður fari ekki að skella sér í Hot Yoga og koma sér í alvöru stand.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Ég er mjög spenntur fyrir árinu. Það verður gaman að halda áfram að þróa Kurashi og að fá að vinna með konunni sinni eru forréttindi. Ég hlakka rosalega til að sýna fólki meira frá því og vonandi koma fleiri vörur fyrir sumarið. Það er stefnan.