Á dögunum kom út nýtt jólalag, Jólafjölskyldan, eftir þær Sigrúnu Helgu Pálsdóttur (Rúrý) og Dagbjörtu Sigurbjörnsdóttur en þær eru vinkonur úr 5. bekk Vallaskóla á Selfossi. Dúettinn kallar sig RuDa.
„Við höfum ekki verið að semja mikið, eitthvað smá, en þetta er fyrsta jólalagið sem við semjum. Við sömdum lagið og textann saman, við fórum heim eftir skóla og fórum undir borð og byrjuðum að skrifa niður. Svo fór pabbi Dagbjartar yfir þetta með okkur,“ sagði Rúrý í samtali við sunnlenska.is.
Þær stöllur segja að þetta hafi verið mjög skemmtilegt verkefni, bæði að semja og taka upp lagið og síðan að búa til myndbandið sem nú er komið á Youtube. Og það er óhætt að segja að lagið sé grípandi og skemmtilegt.
Fagmenn og fjölskyldumeðlimir aðstoðuðu
Vinkonunar nutu aðstoðar fagmanna og fjölskyldumeðlima við upptöku lagsins. Stjórn upptöku var í höndum Vignis Snæs Vigfússonar úr Írafári. Faðir Sigrúnar Helgu, Páll Sveinsson, trommari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, trommaði lagið og faðir Dagbjartar, Sigurbjörn Daði Dagbjartsson, sem verið hefur í Geimförunum og fleiri hljómsveitum lék á gítar. Matthías Hlífar Pálsson, bróðir Sigrúnar, lék á bassa en hann er í hljómsveitunum Lucy in Blue og Young Divers. Það var síðan Pétur Sigurdór, bróðir Sigrúnar Helgu, sem klippti saman myndbandið við lagið.
Fullt af öðrum lögum í smíðum
En ætlið þið að semja fleiri lög?
„Já,“ segja þær í einum kór. „Við erum að semja eitt annað jólalag og fullt af öðrum lögum,“ segja vinkonurnar, en tónlistarsamstarf þeirra virðist hafa smollið saman um leið og þær kynntust.
„Við höfum verið saman í hljómsveitum frá því við hittumst fyrst, það var bara fyrsta daginn í skólanum, þá sátum við bara tvær saman. Þá vorum við í einni skrítinni hljómsveit, svo vorum við í annarri hljómsveit þar sem Dagbjört spilar á píanó og Rúrý syngur og einn vinur okkar sem er með okkur í bekk spilar á trommur. Svo syngjum við báðar í RuDan,“ segja tónlistarkonurnar efnilegu að lokum.