Föstudagslagið í dag með Hr. Eydís er lagið I´m Still Standing eftir þá félaga Elton John og Bernie Taupin og er af plötunni Too Low For Zero.
Elton hafði verið í nokkru óstuði á síðustu fjóru plötum sínum og var talinn vera á „útleið“ hvað vinsældir varðaði en þessi plata kom honum aftur á kortið og talað var á sínum tíma um „comeback“. Lagið I´m Still Standing skaust víða mjög ofarlega upp á vinsældalista og kom Elton John aftur í miðju sviðsljóssins.
Á meðan strákarnir í Hr. Eydís unnu að laginu þá rifjuðu þeir upp söguna af myndbandsgerð Eltons við þetta lag. Myndbandið var tekið upp í Cannes á frönsku rívíerunni. Það var einhver vandræðagangur eftir fyrsta tökudaginn, tökumaðurinn féll út í sjó með myndavélina og filmurnar og allt eyðilagðist. Því þurfti að vakna eldsnemma næsta dag til þess að ná að taka allt upp aftur og klára myndbandið.
Það vildi svo til að fyrir tilviljun var hljómsveitin Duran Duran á sama stað og hitti þar Elton John sem var alveg búinn á því. Simon Le Bon stakk upp á því við Elton að hann fengi sér Martini-glas til að koma sér í gegnum daginn. Þetta eina glas varð reyndar að sex glösum og Elton kláraði myndbandið vel slompaður. Þeir héldu svo áfram að drekka, Duran-liðar og Elton. Daginn eftir vaknaði Elton og sá að hótelherbergið var allt í rúst. Hann spurði því aðstoðarmann sinn, hvað gerðist. Svarið kom á reiðum höndum, „Þú gerðist!“.