Skátafélagið Fossbúar á Selfossi stendur fyrir fræðslufundi um skátastarf í kvöld kl. 20.
Ólafur Proppé, fyrrverandi prófessor og rektor Kennaraháskóla Íslands, mun fjalla um uppeldislegt og forvarnarlegt gildi skátastarfs og mikilvægi þess í tómstundastarfi barna og unglinga. Hann mun einnig segja frá því sem er á döfinni hjá skátahreyfingunni, svo sem nýjan og mjög spennandi ramma sem þróaður hefur utan um skátastarfið og kaup skátahreyfingarinnar á Úlfljótsvatni og framtíðarsýn varðandi það svæði.
Að sögn Auðar Lilju Arnþórsdóttur, félagsforingja, hefur starf Fossbúa gengið vel í vetur en betur má ef duga skal og félagið þarf nauðsynlega á stuðningi fólksins í samfélaginu að halda til að það geti haldið áfram að dafna.
Á fundinum í kvöld mun Ólafur fjalla um hvernig fullorðnir einstaklingar, félagasamtök og sveitarstjórnir geta tekið þátt í skátastarfi eða stutt við það á annan hátt.
Allir eru velkomnir á fróðlegan fund á mánudagskvöld í skátaheimilinu á lóð Sandvíkurskóla við hlið sundlaugarinnar. Fundurinn stendur frá kl. 20 til 21 en þá verður boðið uppá kaffi og kakó. Aðalfundur skátafélagsins verður síðan haldinn kl. 21:30.