Í dag var opnuð fræðslusýning í Skaftárstofu – upplýsingamiðstöð í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.
Á sýningunni er margt að sjá, þar er m.a. fræðslusýning frá Vatnajökulsþjóðgarði og náttúrusýnasafn Kirkjubæjarstofu. Kvikmyndin Eldmessa er sýnd á tjaldi, eldgosinu í Grímsvötnum eru gerð góð skil og margvíslegt annað mynd- og margmiðlunarefni er í boði á sýningunni.
Skaftárstofa er samstarfsverkefni um fræðslu og miðlun upplýsinga til ferðamanna í félagsheimilinu. Aðilar að samstarfinu eru; Kirkjubæjarstofa, Skaftárhreppur, Vatnajökulsþjóðgarður, Skaftáreldar ehf og Friður og frumkraftar – hagsmunafélag í Skaftárhreppi.
Sýningin er styrkt af Vinum Vatnajökuls – hollvinasamtökum Vatnajökulsþjóðgarðs.
Frítt er inn á sýninguna og eru allir íbúar velkomnir ekki síður en gestir svæðisins. Skaftárstofa er opin virka daga frá 9 til 21 og frá 10 til 18 um helgar.