Ég hef sem formaður íþrótta- og menningarnefndar 2010-2018 átt gott og ánægjulegt samstarf við félaga í Leikfélagi Selfoss en félagið fagnar 60 ára afmæli á þessu ári.
Þetta magnaða leikfélag hefur sett upp og unnið 84 verkefni á þessum árum sem er einstakt.
Viljinn og krafturinn í félagsmönnum í gegnum árin hefur sýnt og sannað fyrir mér hversu rík við erum í þessu samfélagi okkar að eiga slíka menningarstofnun. Aðstaðan hefur ekki alltaf verið öflug en síðustu ár hefur félagið haft aðstöðu í gamla Iðnskólanum og kalla litla leikhúsið við Sigtún. Vonandi fáum við svo sýningarhús fyrir tónlist og leiklist í menningarsal Suðurlands innan fárra ára.
Í litla leikhúsinu við Sigtún hafa þeir sett upp hvert meistarastykkið af öðru og núna er það barna og fjölskyldusýningin Á vit ævintýranna sem ég sá um daginn með fjölskyldunni.
Rétt um klukkutími með þéttri seríu af leikverkum sem í senn eru skemmtileg og umfram allt fyndin í uppsetningu Leikfélags Selfoss. Byggt á verkum um Litla Kláus og Stóra Kláus, En hvað það var skrýtið og Sálin hans Jóns míns.
Börn og fullorðnir skemmtu sér vel og var mikið hlegið. Leikarar, leikstjórinn Ágústa Skúladóttir, leikmyndahönnuðir, ljósamenn og fleiri sem að sýningunni koma vinna þarna gott verk.
Birta Sólveig Söring Þórisdóttir er frábær á sviðinu líkt og meðleikarar allir og vil ég nota tækifærið að þakka fyrir mig og hvetja alla foreldra og ömmur og afa að gefa sér tíma og fara með börnin á skemmtilega sýningu í leikhúsinu við Sigtún.
Ódýr og góð skemmtun og höfum það hugfast að menning blómstrar ekki í heimabyggð nema við heimafólk notum það sem boðið er upp á í heimahéraði. Takk fyrir mig.
Kjartan Björnsson
P.S. Sýningar eru á hentugum tímum fyrir börn og þær næstu eru laugardaginn 17. nóv kl 13, sunnudaginn 18. nóv kl 18, fimmtudaginn 22. nóv kl 19:30 og laugardaginn 24. nóv kl. 18 og er hún lokasýning.