Frábær þátttaka í tónlistarkeppninni „Flygill“

Viðurkenningarhafar ásamt Alexöndru skólastjóra. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Þann 7. febrúar héldu allir tónlistarskólar landsins upp á Dag tónlistarskólanna. Í Tónskóla Mýrdalshrepps var Dagur tónlistarskólanna haldinn í annað sinn með hátíðardagskrá og tónlistarkeppninni „Flygill“.

Keppnin var haldin í fyrsta skipti í fyrra fyrir nemendur tónskólans, að frumkvæði Alexöndru Chernyshovu, tónskólastjóra. Tónlistarnemendur sem tóku þátt í keppninni á þessu ári voru á aldrinum 3 ára til 91 árs. Keppnin var í þremur flokkum: fyrir bestu teiknimynd, fyrir bestu ævintýrasögu/ljóð og besta frumsamda lagið, og í þremur aldursflokkum.

Á þessu ári voru sextíu innsendingar í tónlistarkeppnina, og heiðursdómari var Anna Björnsdóttir, tónlistarkona. Það er gaman að segja frá því að haustið 2023, að frumkvæði Önnu, eignaðist Tónskólinn í Vík Yamaha flygil, sem stendur í sal tónskólans og er mikið elskaður og mikið nýttur í starfi skólans.

Viðurkenningar fengu: Fyrir bestu teiknimynd í yngsta flokki fengu verðlaun tvíburarsysturnar Birgitta Ósk og Andrea Ósk Gunnarsdætur. Í flokki unglinga fékk Angelina Rutkowska verðlaun fyrir bestu teiknimyndina.

Fyrir besta frumsamið lag í barnaflokki fengu verðlaun Kjartan Týr Moreno Þorgerðarson fyrir lagið „Laufblöðin fljúga upp í himininn“ og Hilmir Blær Jónsson fyrir lagið „Himinninn í glimmerinu“ eða „Glóandi stjarna himinsins“. Í unglingaflokki fengu Freyja Dögg Atladóttir Waagfjörð verðlaun fyrir lagið „Spuni“ og Harpa Sólilja Ólafsdóttir fyrir lagið „Rósagarðurinn“.

Í ævintýratónlistarsögukeppni barna vann León Ingi Cárcamo Hörpuson með söguna „Fimm vinir í Tónlistarlandi“, og í flokki fullorðinna vann Reynir Ragnarsson með tónlistarljóðið „Minning“.

Allir fóru heim með bros á vör
„Það var gaman að byrja hátíðina með bíókvöldi fyrir tónlistarnemendur, tónlistaratriði og poppi degi áður, síðan 7. febrúar byrjaði hátíðardagskrá með masterklössum fyrir tónlistarnemendur, sem voru í höndum tónlistarkennaranna Orra Guðmundssonar, Álvaro Sánchez Bernal og Katrínar Waagfjörð. Eftir það voru tónleikar með nemendum tónskólans sem tóku stigspróf í vetur,“ segir Alexandra Chernyshova, skólastjóri.

Allir fengu glaðning og viðurkenningarskjal fyrir þátttöku í keppninni. Eftir tónleikana voru vöfflur og kaffi fyrir gesti í boði tónskólans. Hátíðardagskránni lauk með samsöng „Syngjum saman“, þar sem Alexandra skólastjóri spilaði á flygil og tónlistarkennarar tónskólans spiluðu undir. „Þetta var mjög skemmtilegur dagur, og allir fóru heim með bros á vör.“

Atriði vinningshafa má sjá á rás tónskólans á YouTube hér fyrir neðan.

Fyrri greinSlæmar holur á Hellisheiði
Næsta grein„Mikilvægt að Bjartur finnist sem fyrst“