Miðvikudaginn 14. júlí frá kl 15:00 til 17:00 verður fræðsluganga í Skálholti með Ingólfi Guðnasyni, garðyrkjufræðingi.
Ingólfur er hönnuður Jurtagarðsins í Skálholti. Í fræðslugöngunni mun hann leiða gesti í allan sannleikann um tilurð garðsins og tilgang. Í garðinum er að finna sýnishorn nytjajurta sem reynt var að rækta á Íslandi á liðnum öldum.
Einnig er þar úrval íslenskra villijurta sem safnað var til margvíslegra nytja fyrrum. Við val á tegundum var lögð sérstök áhersla á þátt Skálholtsstaðar og þá vitneskju sem aðgengileg er um grasnytjar þar. Með því að leita fanga í rannsóknum jarðfræðinga, grasafræðinga sem og í ferðabókum, gömlum lækningaritum, Íslandslýsingum og öðrum ritheimildum má fara nokkuð nærri um hvaða nytjajurtir voru kunnar.
Ingólfur mun kynna þær jurtir sem Skálholtsbúar höfðu með vissu ræktað safnað og notað á staðnum eða voru alþekktar nytjajurtir á fyrir öldum. Einnig mun hann draga fram það helsta sem vitað er um garðræktarsögu Skálholts frá landnámi fram til um 1800.
Gangan er ókeypis og allir velkomnir. Gangan er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurlands.