Franskt söngtríó á lokatónleikum Engla og manna

Les Itinérantes. Ljósmynd/Isabelle Banco

Um aldir alda er yfirskrift lokatónleika tónlistarhátíðarinnar Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi sunnudaginn 28. júlí kl. 14.

Á tónleikunum kemur fram hið þekkta franska a capella söngtríó Les Itinérante. Tríóið flytur á tónleikunum hugleiðslutónlist og fer með áheyrendur í draumkennt ferðalag í gegnum tónlist níu alda á þrettán tungumálum. Meginþráðurinn í efnisvali þeirra eru konur, náttúra, ferðalög og ímyndunarafl.

Tríóið skipa söngkonurnar Manon Cousin, Pauline Langlois de Swarte og Elodie Pont. Tríóið var stofnað árið 2017 og síðan þá hafa þær sent frá sér fjórar hljómplötur, komið fram á tónleikum víða um Evrópu og eru eftirsóttar jafnt í Evrópu sem og í heimalandi sínu Frakklandi.

Þetta er þrettánda sumarið sem Tónlistarhátíðin Englar og menn fer fram í Strandarkirkju en kirkjan er þekktasta áheitakirkja landsins og er þekkt fyrir sérstakan kraft og bænheyrslu.

Tónleikarnir eru um klukkustundar langir og hægt er að kaupa veglegar veitingar hjá heimamönnum að tónleikum loknum.

Aðgangseyrir er kr. 4.000 og miðasala er við innganginn. Tónlistarhátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Fyrri greinÞrjú brauð í boði á Suðurlandi
Næsta greinGull í hús og gömul met fuku í Gautaborg