Frasamessa á bókasafninu á Selfossi

Bókasafn Árborgar.

Jæja, góðan daginn, gjörðu svo vel, viltu afrit, settu vöruna á pokasvæðið, ekki núna, takk fyrir.

Hvaða orð og frasa er gott að kunna og skilja vilji fólk sem er að læra íslensku spreyta sig á að nota í íslensku samfélagi?

Fimmtudaginn 8. maí verður frasamessa á bóksafninu á Selfossi. Messan er liður í átakinu Gefum íslensku séns sem hófst í Árborg fyrir rétt tæpum mánuði. Markmiðið með frasamessunni er að varpa ljósi á algengar setningar sem gagnast vel í samskiptum fólks og að auki bjóða upp á skemmtilega samveru þar sem fólk sem á ekki íslensku að móðurmáli hittist og æfir sig í að nota hina ýmsu frasa.

Það eru Háskólafélag Suðurlands, Fræðslunet Suðurlands og menningar- og upplýsingadeild Árborgar sem standa að átakinu og að sjálfsögðu eru öll velkomin, bæði þau sem eru að æfa sig íslensku og eins þau sem vilja koma og leggja orð og setningar í frasapúkkið.

Frasamessan hefst kl. 17:00 og lýkur 17:45. Ekki þarf að skrá sig, bara mæta og hafa gaman.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Suðurlands.

Fyrri greinAnna Metta Íslandsmeistari og Kristinn setti HSK met
Næsta greinÓli og Inga hlutu hvatningarverðlaun garðyrkjunnar