Árleg söngvakeppni Menntaskólans að Laugarvatni, Blítt og létt, fór fram í lok október eftir vel heppnaðan kynningardag í ML þar sme nemendur í 10. bekk fengu að kynnast skólanum.
Það var mikið um dýrðir að vanda í íþróttahúsinu á Laugarvatni og eftir skemmtilega keppni var það Freyja Benónýsdóttir sem sigraði í söngkeppninni en hún flutti lagið Distance. Bakraddir Freyju voru Erla Rut Pétursdóttir, Hákon Kári Einarsson og tvíburasystir hennar; Oddný Jóhanna Benónýsdóttir.
Oddný Jóhanna varð í 2. sæti með lagið Unawere og þar var Freyja bakrödd og í 3. sæti urðu síðan Gísella Hannesdóttir með frumsamda lagið Dreifum gleði og ást og Oddný Lilja Birgisdóttir með Vetrarsól.
Keppendur í Blítt og létt spiluðu ýmist sjálfir undir í lögum sínum eða nýttu sér Hróðmenn, hljómsveit keppninnar. Hróðmenn skipa þeir Arnar Kári Guðjónsson á bassa, Elvar Bragi Kristjónsson á píanó, Steinn Daði Gíslason á trommur og Hróðmar Sigurðsson á gítar.
Dómarar voru þau Sólborg Guðbrandsdóttir, Magnús Kjartan Eyjólfsson og Karl Hallgrímsson.
Hér fyrir neðan má sjá flutning Freyju og félaga á sigurlaginu, Distance.