Næstkomandi sunnudag, þann 12. ágúst klukkan 15:00, mun Tómas Jónsson píanóleikari halda einleikstónleika í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn.
„Það kom sterk og skýr tilfinning og hugmynd um að gera þetta. Mig langaði að gera eitthvað svona lagað þarna í kirkjunni og hafði ekki hugsað þetta annað en látlausa uppákomu. Ég var ekki búinn að sjá það sjálfur ennþá að þetta eru náttúrulega tónleikar. En það er bara gaman. Held ég,“ segir Tómas í viðtali við sunnlenska.is.
„Ég hafði hugsað mér að stilla upp töluverðu af rafbúnaði frá áttunda áratugnum í kringum Bösendorfer flygilinn og búa til sveimandi og fallegan hljóðheim,“ segir Tómas sem er nýfluttur til Þorlákshafnar og vill með tónleikunum bjóða sig velkominn í þorpið.
„Einnig er þetta í raun algjör tilraun, því ég hef aldrei haldið tónleika einn míns liðs áður. Svo var ég að spá í að prufa svolítið af nýju efni og sjá svo til hvert maður reikar,“ segir Tómas en hann hefur víðtæka reynslu sem píanóleikari og hefur spilað með helstu tónlistarmönnum landsins. Nú síðast hefur hann verið að túra um heiminn með Ásgeiri Trausta en einnig er hann í djasshljómsveitinni ADHD og í nýrri hljómsveit Sölku Sólar, svo eitthvað sé nefnt.
„Tónleikarnir eru fyrir alla áhugasama, unga sem aldna. Einnig þá sem vilja taka sér pásu til að draga andann. Það kostar ekkert inn en þeir sem vilja geta veitt frjáls framlög. Það er þó engin skylda,“ segir Tómas að lokum.