Í tengslum við myndlistarsýninguna Lýðveldið í fjörunni sem nú stendur yfir í Gimli á Stokkseyri munu aðstandendur sýningarinnar halda fyrirlestur laugardaginn 6. ágúst, kl. 14 í Lista- og menningarverstöðinni á Stokkseyri.
Að fyrirlestri loknum verður gengið með hópnum yfir í Gimli þar sem boðið verður upp á listamannaspjall um sýninguna.
Á fyrirlestrinum verður greint í máli og myndum frá sýningarverkefni listamannanna sem spannar nú sjö sýningar í sex sveitarfélögum. Megináherslur sýningarhópsins felast í því að efna til margháttaðrar samræðu við lýðveldið Ísland, öðrum þræði með hliðsjón af sögu, menningu og náttúrulegu umhverfi þess staðar sem myndar umgjörð sýningarinnar hverju sinni. Sýningarnar hafa verið settar upp í óhefðbundnu húsnæði með það að markmiði að kanna þá möguleika sem búa í gömlum byggingum með nýju samhengi, þar sem tvinnast saman saga gamalla atvinnuhátta, skapandi starf og viðburðir í samtímanum.
Aðgangur er ókeypis.
Listamennirnir eru Anna Jóa, Bryndís Jónsdóttir, Guðbjörg Lind Jónsdóttir,Hildur Margrétardóttir, Hlíf Ásgrímsdóttir, Kristín Geirsdóttir, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá og Ólöf Oddgeirsdóttir.