Vinir Vatnajökuls hafa gefið út fyrstu bókina sem rituð hefur verið um Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð Evrópu.
Bókin Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð er gefin út á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku. Henni er ætlað að gefa þeim sem hyggur á ferð um þjóðgarðinn upplýsingar sem gagnast við að skipuleggja ferðalagið og jafnframt að vera ferðafélagi meðan á ferðinni stendur.
Bókina prýða fjöldi litmynda, teikninga og korta. Kynnt er jarðfræði, dýralíf, saga og náttúra þjóðgarðsins. Sagt er frá því sem vert er að gera og skoða, gefnar eru upplýsingar um gagnlegar vefsíður og símanúmer þar sem finna má gistimöguleika, ferðþjónustuaðila og öryggisatriði sem taka þarf tillit til á ferðalögum um þjóðgarðinn. Ítarleg heimildaskrá er í bókinni, hún kemur þeim vel sem vilja kynna sér þjóðgarðinn og nágrenni hans enn nánar.
Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð, er tímamótaverk í flóru ferðabóka um Ísland. Höfundurinn Hjörleifur Guttormsson sem margir kalla guðföður Vatnajökulsþjóðgarðs hefur unnið verkið af vandvirkni, þekkingu og eljusemi. Engum steini hefur hann látið ósnúið í leit sinni að hinu sanna um jarðfræði, náttúru, staðhætti og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs og nágrennis hans.
Bókin kemur í verslanir um helgina og verður m.a. fáanleg í gestastofunni í Skaftafelli á morgun.