Hljómsveitin Moskvít vinnur nú hörðum höndum að nýrri plötu og fyrsta lagið af henni er komið inn á allar helstu streymisveitur. Lagið heitir Superior Design, og er titillag nýju plötunnar.
Þetta er fyrsta lagið sem Moskvít sendir frá sér á þessu ári og hefur það fengið góðar viðtökur. Lagið er taktfast en þó eins og úr öðrum heimi, þar sem gítarinn bergmálar eins og úr annari vídd, hvort sem hann er plokkaður eða látinn væla eins og seiðandi sírena.
„Texti lagsins vísar í hvernig mannkynið, dýr af æðri hönnun, hefur mátt til að skapa eða tortíma, en stjórnast þó bara af einföldum tilfinningum og hugmyndafræði. Við teygjum okkur inn í hyldýpi alheimsins og reynum að krækja klónum í eitthvað sem gefur okkur tilgang, en vitum ekki hvort hann er að finna þarna úti eða einhvers staðar inn á við,“ segir í tilkynningu frá Moskvít.
Mannabreytingar hafa orðið hjá hljómsveitinni en gítarleikarinn Guðmundur Helgi er kominn um borð í Moskvítinn og fljótlega mun annar gítarleikari bætast í hópinn. Hljómsveitin er spennt fyrir komandi tímum og undirbýr nú útgáfu næsta lags af plötunni, en það mun koma út þann 17. febrúar.