Human Error, fyrsta plata sunnlensku hljómsveitarinnar Moskvít, kom út síðastliðinn föstudag. Margir hafa beðið spenntir eftir plötunni en Moskvít hefur reglulega sent frá sér smáskífur af henni síðustu misseri.
Sunnlenska hljómsveitin Moskvít hefur nú starfað í rúmlega eitt og hálft ár í núverandi mynd. Hljómur plötunnar ber keim af vestrænum blús en er einnig vel rokkaður með smá smiti af poppi og hard-rocki. Platan er þemaplata og fjallar um persónu sem glímir við sinn innri djöful en lögin sem sköpuð voru með mismunandi hugarfari og á mismunandi tímabilum standa þó vel ein og sér.
Mörg lög plötunar einkennast af mikilli spennu og hasar, má þar nefna lagið Tarantino sem er fyrsta lag plötunnar og algjörlega tilvalið til þess að hrinda tilfinningaþrungni sögu af stað. Aðalpersóna verksins glímir við þær hryllilegu hvatir að vilja stráfella fólk en í stað þess að takast á við vandann þá flýr hann sjálfan sig og rökhugsun sína. Hans innri myrkrahöfðingi nær yfirhöndinni og rauði þráðurinn; morðinginn, hans hugsanir og tilfinningar liggja í gegnum plötuna.
Í tilkynningu frá Moskvít segir að meðlimir hljómsveitarinnar hafi lagt afar mikið í þetta dýrmæta sköpunarverk og hafa allar dyr, tónlistarlega séð, verið opnar. Platan fjallar vissulega um sögu morðingjans og hans raunir eða athafnir en ef við skyggnumst dýpra er þetta í raun um þá ádeilu sem gerist innra með honum þar sem að margar tilfinningar koma við sögu; ást, losti, hatur og eymd.
Hljómsveitina Moskvít skipa þau Sigurjón Arndal Erlingsson – söngur/bassi, Alexander Örn Ingason – trommur/bakraddir, Jón Aron Lundberg – Píanó/bakraddir, Valgarður Uni Arnarsson – gítar/bakraddir og Jóhanna Rut – fiðla. Upptaka og hljóðblöndun var í höndum Kjartans Guðmundssonar í Dynur Recording Studio í Hveragerði og Neil Pickles hjá Reveal Sound sá um hljómjöfnun.
Hér að neðan má finna Human Error á Spotify.