„Fyrsti vangadansinn var við lagið þeirra“

Anna (t.h.) og Maria Corydon bakrödd, ásamt René Dif á tónleikunum í Silkeborg. Ljósmynd/Aðsend

Söngkonan Anna Hansen frá Leirubakka í Landsveit ætti að vera orðin lesendum sunnlenska.is að góðu kunn.

Fyrr á þessu ári tók hún að sér raddþjálfun hjá danska X-Factor en hún hefur starfað sem farsæll söngkennari í Danmörku síðastliðin tíu ár. Nú hefur enn ein skrautfjöðurin bæst í hatt Önnu en hún er orðin ein af bakröddum dönsku popphljómsveitarinnar Aqua. Aqua kannast flestir Íslendingar vel við sem voru unglingar á tíunda áratugnum en lagið þeirra Barbie Girl sló rækilega í gegn víða um heim árið 1997.

En hvernig kom það til að sunnlensk sveitastelpa sé núna orðin ein af bakröddunum hjá Aqua? „Í gegnum vini! Tveir góðir vinir mínir spila reglulega með þeim á bassa og trommur og ég þekki líka báðar stelpurnar sem syngja vanalega bakraddir fyrir þau. Þær tvær eru leikkonur og fengu báðar hlutverk í söngleikjum í Kaupmannahöfn núna í haust, þannig að það vantaði afleysingamanneskju inn fyrir Kanadatúrinn sem við erum að fara á,“ segir Anna í samtali við sunnlenska.is.

„Þegar var farið að ræða það hvern þau ættu að spyrja voru þau öll sammála um að það kæmi enginn til greina nema ég, sem ég er alveg ótrúlega þakklát fyrir! Fyrir þeim er mjög mikilvægt að það sé einhver sem maður getur treyst á að mæti vel undirbúinn, kunni sitt og syngi vel, en svo er ekki síður mikilvægt að manneskjan passi vel inn í hópinn, þar sem þetta geta verið langir dagar í hljómsveitarrútu og baksviðs.“

(F.v.) Anna Hansen, Morten Hellborn, trommuleikari, Søren Lund, gítarleikari, Søren Rasted, Lene Nystrøm og René Dif, Maria Corydon, bakrödd og Anders Borre Mathiesen, bassaleikari. Ljósmynd/Aðsend

„Frekar súrrealískt!“
Anna er vonum glöð að vera orðin ein af bakröddum sveitarinnar. „Mér finnst það nú eiginlega hálf ótrúlegt, ef ég á að segja eins og er. Ég var 11 ára þegar fyrsta platan þeirra kom út og allir í bekknum áttu geisladiskinn. Ég á einmitt minningu um fyrsta vangadansinn í einhverju bekkjarafmæli við lagið þeirra „Turn back time“. Átti ekki endilega von á því að ég myndi svo fá starf sem bakrödd með þeim mörgum árum seinna. Þetta er frekar súrrealískt!“

Hljómsveitina Aqua skipa þau René Dif, Lene Nystrøm og Søren Rasted og Anna segir að þau séu alveg „ótrúlega næs“.

„Þau eru búin að vera í bransanum í mörg, mörg ár og það eru engir stjörnustælar í þeim eða neitt svoleiðis. Þau tala sjálf um hljómsveitina sem sína „aðra fjölskyldu“, og eins og ég sagði áðan finnst þeim mikilvægt að það sé góð stemning í hópnum og fólk sem er gaman að hanga með.“

„Annars er þetta bara ótrúlega mikil fagmennska og stórt lið á bak við hljómsveitina, umboðsmaður, hljóðmenn, ljósamenn, „tourmanager“, stílisti og hárgreiðslu-/förðunarfræðingur, þannig það er séð vel um okkur!“ segir Anna.

Það er vel séð um listamennina. Hér hefur Annika Lindgren hendur í hári Önnu og fyrir aftan eru stílistinn Sofie Broeng og Lene Nystrøm. Ljósmynd/Aðsend

Á leiðinni til Kanada
Anna er ekki búin að vera lengi með sveitinni. „Þetta er nýtilkomið. Ég er sem sagt ráðin inn sem afleysingamanneskja fyrir komandi ferð til Kanada, en fékk inn auka tónleika þar sem ég söng með þeim í fyrsta skipti núna síðasta föstudag í Silkeborg í Danmörku. Það var mjög gott að hitta þau og kynnast þeim aðeins áður en við leggjum í hann.“

„Við leggjum af stað til Kanada á sunnudagsmorgun, fljúgum til Vancouver og munum svo ferðast þaðan með rútu til fimm mismunandi borga, þar sem við komum fram á tónlistarhátíðarröð sem heitir 90’s Nostalgia, þar sem verða líka nöfn eins og 2Unlimited, Haddaway, Ace of Base, Whigfield og fleiri nöfn frá 10. áratugnum. Ég er mjög spennt að sjá hvort hin böndin eldist eins vel og Aqua!“

„Þau voru annars mjög ánægð með mig eftir fyrstu tónleikana, og fannst geggjað að fá mig inn, sem er ekki leikkona og með samning við leikhúsin eins og hinar, þannig að það verða vonandi fleiri tónleikar fyrir mig í framtíðinni,“ segir Anna brosandi.

Anna og Maria á tónleikunum í Silkeborg um síðustu helgi. Ljósmynd/Aðsend

Bjartari tímar framundan
Anna er búin að búa í Danmörku í þrettán ár. Nýverið aflétti Danmörk öllum covid-takmörkunum og farið að líta á covid eins og hverja aðra flensu. Kófið hefur líka lítil áhrif á tónleika Aqua utan Danmerkur.

„Þetta verða fimm tónleikar í Kanada – og mér skilst að Covid ástandið sé ekki mjög slæmt þar, þannig ekkert mál að halda tónleika. Hér í Danmörku er nýbúið að aflétta öllum Covid takmörkunum þannig þetta er ekki eins mikið í umræðunni lengur. Allir að halda tónleika og brúðkaup og veislur, og ég er orðin bókuð núna allar vikur fram yfir áramót í allskonar verkefni.“

„Maður finnur samt alveg að fólk hugsar ennþá um þetta, það eru ekki allir sem gefa knús eða handaband þegar maður hittir fólk og fólk þvær enn og sprittar hendur. Það verður væntanlega eitthvað áfram. Þetta eru annars búin að vera erfið ár fyrir tónlistarbransann hér og auðvitað annars staðar, þannig það er ótrúlega gott að heimurinn sé að opna aftur og að við séum komin með meira að gera aftur,“ segir Anna.

Anna og Maria á sviðinu og fyrir aftan eru Søren Rasted og Søren Lund. Ljósmynd/Aðsend

Plata á leiðinni
Það er nóg að gera hjá Önnu. Í fyrra gaf hún út sitt fyrsta lag á Spotify og það er von á meira efni frá henni. „Ég er að vinna í lagasmíðum fyrir mína fyrstu EP plötu, gaf út lag í lok júní sem hefur fengið mjög góðar viðtökur og er með fleiri lög tilbúin og í bígerð. Þannig það líður vonandi ekki langur tími þangað til ég gef út næsta lag! Annars er ég á fullu að syngja og fæ vonandi meiri vinnu með Aqua, og meðfram því er ég svo að kenna í Complete Vocal Institute skólanum í Kaupmannahöfn sem margir íslendingar þekkja vel,“ segir Anna að lokum.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Önnu á Instagramsíðu hennar.

 

Fyrri greinSelfosskonum spáð upp
Næsta greinÓlafía hlaut náttúrverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti