Þann 24. maí næstkomandi mun hljómborðsleikarinn Tómas Jónsson halda tónleika í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn ásamt Sigurði Guðmundssyni.
Þetta eru fyrstu tónleikarnir í tónleikaröð sem nefnist Gestagangur og verða tónleikar á hverjum sunnudegi fram að Jónsmessu.
„Eins og allir vita þá er búið að vera lítið um tónleika núna síðustu mánuði út af covid en nú horfir til bjartari tíma hvað það varðar og því þótti okkur Tómasi tilvalið að bjóða öllu þessu frábæra tónlistarfólki heim í Þorlákshöfn,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, sem sér um að skipuleggja tónleikana ásamt Tómasi unnasta sínum.
Tónlist hefur lækningarmátt
„Það er óvíst hvernig verður með hátíðarhöld í sumar og alveg ómögulegt að hafa ekkert framundan sem veitir fólki gleði, en ég trúi því staðfastlega að tónlist hafi lækningarmátt og sér í lagi þegar maður upplifir hana í fallegu umhverfi eins og í Þorlákskirkju þar sem hafið og fjöllin eru allt í kring,“ segir Ása.
„Það hefur verið mikið talað um það hvað þessi farsótt hefur tekið á sálartetrið í Íslendingum og svona viðburður gæti verið ágætis vítamínsprauta fyrir marga.“
Tómas stendur í brúnni og tekur á móti góðu fólki næstu fimm sunnudaga. Sigurður Guðmundsson er fyrsti gesturinn en í framhaldinu stíga á stokk Valdimar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius, Magga Stína og Salka Sól.
Ása segir að tónlistarfólkið eigi það sameiginlegt að vera öll með skemmtilega og góða nærveru – fyrir utan það að vera stórkostlegir söngvarar. „Svo að það má segja að þetta verða bæði skemmtilegir tónleikar og hjartahlýjir,“ segir Ása.
Auðvelt að halda öruggri fjarlægð
Ása hvetur alla tónlistarunnendur til að mæta á tónleikana. „Í Þorlákskirkju er nóg pláss svo það ætti að vera auðvelt að halda sig í öruggri fjarlægð kjósi maður það, en við mælum með því að panta miða á gestagangur2020@gmail.com til þess að tryggja sér sæti. Við fylgjum auðvitað þeim fjöldatakmörkunum sem eiga við hverju sinni. Miðana er svo hægt að greiða með snertilausri posagreiðslu við innganginn.“
Allir tónleikarnir hefjast kl. 16 fyrir utan tónleika Sigríðar sem eru kl. 20. Miðverð er 3.500 kr. Allar nánari upplýsingar er að finna á Facebook viðburðinum.