Lárus Arnar Guðmundsson í Þorlákshöfn svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er svo mikill jólaálfur að ég á erfitt með svefn í desember fyrir spenningi.
Uppáhalds jólasveinn? Í minningunni var Kertasníkir alltaf að gefa mest svo ég segi bara hann.
Uppáhalds jólalag? Það eru lögin Jólaenglar með Emilíu Hugrúnu og Ó Helga nótt. Besta útgáfan af því er með mínum mönnum í Karlakór Selfoss.
Uppáhalds jólamynd? Held að það sé mest horft á Home Alone og Grinch á heimilinu. Það eru fínar myndir.
Uppáhalds jólaminning? Jól sem við eyddum í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. Góð samvera og góðar minningar.
Uppáhalds jólaskraut? Aðventuljósið ber af í jólaskrauts flokknum.
Minnistæðasta jólagjöfin? Það var minnisstætt þegar ég ætlaði að versla jólagjöfina fyrir hana Írisi mína á Þorláksmessu í Kaupmannahöfn. Fór út sirka hálf níu um kvöldið og hélt ég hefði nægan tíma en Daninn nennir ekkert þessum löngu opnunartímum eins og Íslendingurinn þannig að hann lokaði bara um 18-19 og var farinn í frí fram yfir jól. Gaf danskar krónur í umslagi og eitthvað súkkulaði úr sjoppunni það árið. En dásamleg jól í Kaupmannahöfn samt sem áður.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Til dæmis laufabrauðsgerð, bílskúrs skötupartýið, jólabústaður og jólaseðill í Tryggvaskála með góðum vinum, piparkökuhúsaskreytingar og karlakórstónleikar í Selfosskirkju eru orðin hluti af góðum hefðum fyrir jólin og nauðsynlegt að gera.
Hvað er í jólamatinn? Allavega laufabrauð. Svo finn ég eitthvað gott með því.
Ef þú ættir eina jólaósk? Sama ósk og Pálmi Gunnars söng um: „Út með illsku og hatur. Inn með gleði og frið.“