
Hljómsveitin Geðbrigði frá Selfossi og Mosfellbæ sigraði Músíktilraunir í ár en úrslitakvöldið fór fram í Hörpu í kvöld.
Sveitina skipa Selfyssingarnir Agnes Ósk Ægisdóttir á gítar og Hraun Sigurgeirs á trommur ásamt söngkonunni Þórhildi Helgu Pálsdóttur og Ásthildi Emmu Ingileifardóttur á bassa en þær eru báðar úr Mosfellsbæ.
Geðbrigði, sem spilar þétt og gott drungaþungapönkrokk, rakaði inn verðlaunum í kvöld en Þórhildur var valin söngvari Músíktilrauna og hljómsveitin fékk sömuleiðis verðlaun fyrir bestu textagerð á íslensku.
Sunnlendingar áttu fleiri fulltrúa á úrslitakvöldinu því Elín Karlsdóttir frá Óseyri við Eyrarbakka, sem kemur fram undir listamannsnafninu Elín Óseyri, komst einnig í úrslit.
Alls tóku 42 hljómsveitir eða tónlistamenn þátt í Músíktilraunum í ár og var mikil fjölbreytni í stefnum og stílum atriðanna.