Á morgun, laugardaginn 13. ágúst, standa vinir Geimstöðvarinnar fyrir skemmtilegri hátíð og söfnun í Landmannalaugum.
Geimstöðin er Dodge Weapon bifreið, árgerð 1953, í eigu Olgeirs Engilbertssonar í Nefsholti. Olgeir og Geimstöðin eru ómissandi þáttur árlegrar fjallferðar á Landmannaafrétti. Olgeir hefur farið á Weaponinum á fjall óslitið frá árinu 1977, að einu ári undanskildu og mörg árin jafnframt í eftirleitir.
Vinstri hlið Geimstöðvarinnar þarf aftur á móti viðgerðar við og af þeim sökum var ákveðið að efna til söfnunar svo hægt væri að fara í almennilega viðgerð til að tryggja áframhaldandi viðveru Víbonsins í fjallferðum.
Grilluð verður bleikja sem Fjallafiskur veiðir í vötnum Landmannaafréttar, Fjallafang mun láta alla kaffisölu dagsins renna til söfnunarinnar og skálaverðir Ferðafélagsins baka klatta.
Allir eru velkomnir í Landmannalaugar til að leggja sitt af mörkum í söfnunina. Gleðin mun standa yfir frá 12 til 20 með lifandi tónlist, góðu fólki og fullt af frábærum ferðamönnum.
Þeir sem ekki eiga heimangengt geta lagt gömlum bíl lið með því að gerast vinir hans á Facebook og fengið þar nánari upplýsingar.