Gengið að Brúsastaðarafstöðinni

Brúsastaðarafstöð í Þingvallasveit verður viðfangsefni fræðslugöngu Þjóðgarðsins á Þingvöllum í samstarfi við Upplit, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, og Brúarsmiðjuna í dag kl. 13.

Gengið verður upp með Öxará að rafstöðinni, sem Jón Guðmundsson bóndi á Brúsastöðum byggði árið 1932 í þeim tilgangi að raflýsa Hótel Valhöll, en Jón var jafnframt eigandi Valhallar á þessum tíma. Enn má sjá ummerki um virkjunina; stíflu og stöðvarhús, en Brúsastaðarafstöð var ein af stærri einkarafstöðvum landsins á sinni tíð. Hún var lögð af árið 1946.

Um leiðsögn í göngunni sér Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari frá Heiðarbæ og eigandi Brúarsmiðjunnar. Inn í frásögnina verður fléttað tilvitnunum í blaðafréttir um virkjunina og umræður á Alþingi veturinn 1928 um frumvarp til laga um friðun Þingvalla, þar sem fyrirhugaða virkjun ber á góma.

Lagt verður upp í gönguna kl. 13.00 frá bílastæðinu við Langastíg, skammt vestan við þjóðgarðshliðið og austan við Öxará. Ráðlegt er að vera í góðum gönguskóm og hafa hressingu meðferðis. Gert er ráð fyrir að gangan taki þrjá til fjóra klukkutíma, með góðu stoppi við rafstöðina, þar sem upplagt er að fá sér nestisbita og hvíla lúin bein.

Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Samfélagssjóði Landsvirkjunar.

Fyrri greinAlvöru flöskuball í Hvolnum
Næsta greinHafna eignarnámi