Menningarganga verður gengin í tólfta sinn á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi á morgun, laugardaginn 6. ágúst. Að þessu sinni verður gengið um Eyraveg, Kirkjuveg, Sunnuveg og Sigtún, í kringum miðbæinn.
Mæting við Tryggvaskála klukkan 16:00 og gengið niður Eyraveg og inn Kirkjuveg undir leiðsögn Björns Inga Gíslasonar. Þar mun Sigurður Bogi Sævarsson taka við og leiðsegja inn hluta Sunnuvegar og síðan verður farið aftur út á Engjaveg, þar sem Erla og Haddi taka við áður en Sigurður Bogi leiðsegir aftur á hinum hluta Sunnuvegar, en á Sunnuveginum standa nú yfir framkvæmdir sem takmarka umferð um götuna.
Síðan verður haldið inn Sigtúnið, þar sem Böðvar Guðmundsson leiðir göngugesti og síðan endað í burstabæ Sigfúsar Kristinssonar við Bankaveg í sögum, kleinum og kaffi. Stjórnandi tólftu menningargöngunnar er Kjartan Björnsson.