Svokallaðar bókatröppur í miðbæ Selfoss hafa vakið verðskuldaða athygli gesta og gangandi nú í sumar.
Listamaðurinn sem á heiðurinn af þessum fallegu tröppum kallar sig Juan Pictures Art og kemur frá Valencia á Spáni en hefur búið á Íslandi síðastliðin átta ár.
„Ég var ráðinn til að búa til list í nýja miðbænum á Selfossi. Ég fékk þá hugmynd að mála tröppurnar svo að ég bað um lista yfir mikilvægustu bókmenntaverk Íslendinga, til að gera skissu af tröppunum,“ segir Juan í samtali við sunnlenska.is.
Verkin leynast víða
Það tók Juan um viku að klára verkið og voru tröppurnar tilbúnar í byrjun júlí. „Ég fékk frábær viðbrögð frá fólki á meðan ég var að mála tröppurnar. Fólk tók myndir, var spennt að sjá útkomuna og spurði spurninga um verkið.“
Bókatröppurnar eru langt frá því að vera eina verk Juan í miðbænum en hann hefur verið fenginn reglulega til að fegra svæðið síðan miðbærinn opnaði fyrir þremur árum.
„Ég hef málað nokkur verk í miðbæ Selfoss þar sem ég breyti hversdagslegum hlutum eins eins og brunahönum, rafmagnskassa og fleira í eitthvað skemmtilegt. Það má meðal annars finna Prins Póló súkkulaði og mjólkurbíl eftir mig í miðbænum.“
Í fullri vinnu við að skreyta Ísland
Verk eftir Juan má finna víðsvegar um landið og hefur hann skreytt ófáa veggi, grindverk og hús af sinni alkunnu snilld. Eitt þekktasta verk hans er líklega Super Mario grindverkið á Hofsvallagötu í Reykjavík. „Sem betur fer er þetta eina starfið mitt, þó að mér líði ekki eins og það sé starf vegna þess að ég elska það sem ég geri.“
„Markmið mitt er að mála eins marga stóra veggi og mögulega er hægt um allt Íslandi og veita fólkinu innblástur með list minni. Ég býð fólk velkomið að skoða verk mín á Instagram-síðunni minni, @juanpicturesart,“ segir Juan að lokum.
Brunnlok sem breyttust í peninga
Sunnlenska.is hafði samband við Elísabetu Ósk Guðlaugsdóttur, markaðsstjóra miðbæjar Selfoss, og spurði hana hvernig það hafi komið til að Juan fór að skreyta miðbæinn.
„Við höfðum séð verk frá Juan sem vöktu athygli og þá einna helst Super Mario vegginn. Við fengum hann fyrst til að koma og lífga upp á miðbæinn fyrir tveimur árum. Þá var hugmyndin að gera óspennandi en nauðsynlega hluti skemmtilega.“
„Juan kom þá með ótal skemmtilegar hugmyndir eins og til dæmis rafmagnskassarnir fyrir utan Mjólkurbúið sem hann breytti í gamlan MBF mjólkurbíl, brunahani fyrir utan Groovís sem hann gerði að trúðaís, brunnlok sem breyttust í peninga, Prins Póló súkkulaði í gangstéttinni og fleira.“
„Nú í ár langaði okkur að bæta í og gera meira með honum. Við leggjum mikið upp úr því að hafa miðbæinn snyrtilegan, sjarmerandi og skemmtilegan.“
Bókatitlarnir tengjast miðbænum
Elísabet segir að listaverk Juan hafi vakið mikla athygli og gleðji gesti í miðbænum.
„Tröppurnar sem bókahilla eru okkar uppáhalds og við erum gríðarlega ánægð með hvernig þær heppnuðust. Varðandi bókatitlana þá eru þetta ólíkar en frábærar bækur sem allar tengjast miðbænum okkar á þann hátt að þær varpa ljósi á lífið og tilveruna á Íslandi á áratugunum í kringum 1900, tímanum sem húsin endurspegla.“
„Við munum alveg örugglega fá Juan til að halda áfram að lífga upp á umhverfið á komandi árum með stækkandi miðbæ,“ segir Elísabet að lokum.